Sérkenni og svæðismark - tækifæri framtíðar kortlögð
Hvað eiga lyng, þari, rækja og rekaviður sameiginlegt?
Jú, ásamt fleiri einkennum svæðisins eru þessi náttúrufyrirbæri tákngerð í svæðismarki (e. regional brand) sem nú er í vinnslu fyrir Dalabyggð, Reykhólahrepp og Strandabyggð. Markinu er ætlað að stuðla að samræmdri kynningu á upplifun, vöru og þjónustu sem í boði er á svæðinu, með því að segja „sögu“ svæðisins með samræmdum og markvissum hætti. Tilgangurinn er að styðja við atvinnulíf svæðisins með því að styrkja ímynd þess. Tillögur að svæðismarkinu byggja á kortlagningu og greiningu á umhverfi, sögu og menningu svæðisins. Greiningin er hluti af vinnu sveitarfélaganna þriggja við gerð sameiginlegs svæðisskipulags.
Myndin hér til hliðar sýnir hugmynd að táknrænni framsetningu á sérkennum svæðisins, sem þróuð verður áfram í svæðisskipulagsvinnunni.
Í nýútkominni greiningarskýrslu um forsendur svæðisskipulagsgerðarinnar er að finna víðtæka lýsingu á helstu auðlindum og sérkennum skipulagssvæðisins. Lýst er stöðu og áskorunum samfélaganna á svæðinu, auðlindum og nýtingu þeirra og bent á frekari möguleika til að nýta þann auð sem svæðið býr yfir. Efnið er m.a. byggt á skilaboðum heimamanna á fundum sem voru hluti af skipulagsvinnunni.
Þessar forsendur, um umhverfi og samfélag, eru síðan grunnur fyrir tillögur að viðfangsefnum í væntanlegu svæðisskipulagi, framtíðarsýn fyrir svæðið og svæðismarki. Auk þess er því lýst hvernig staðið verður að frekari stefnumótun og umhverfismati stefnunnar, sem tilheyrir næsta áfanga skipulagsvinnunnar.
Greiningarskýrslan er nú lögð fram til kynningar og umsagnar, svo íbúar og aðrir hagsmunaaðilar geti kynnt sér hana, í samræmi við 23. gr. skipulagslaga og 6. gr. laga um umhverfismat áætlana. Skýrsluna má nálgast hér og á vefsíðum sveitarfélaganna þriggja, en pappírsútgáfa liggur einnig frammi á skrifstofum þeirra.
Leitað er eftir ábendingum um efni skýrslunnar, t.d. í formi tillagna, hugmynda eða spurninga. Þær má senda og stíla þannig: Svæðisskipulagsnefnd Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar, b.t. formanns - Ingibjargar Emilsdóttur, skrifstofu Strandabyggðar, Höfðagötu 3, 510 Hólmavík. Einnig má senda ábendingar með tölvupósti til ingaemils@strandabyggd.is (með afriti á matthildur@alta.is). Óskað er eftir að þær berist fyrir 24. febrúar 2017.